HVERNIG VARÐ MÍA TIL?
Hugmyndin að bókinni Mía fær lyfjabrunn varð til þegar Þórunn Eva var að gera lokaverkefnið sitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti kennari Þórunnar að láta verða að þessari bók. Það er mikil þörf fyrir bætta fræðslu í samfélaginu okkar almennt og er hún alls ekki minni innan veggja spítalans og fyrir litla fólkið okkar þar.
Það eru alltaf nokkur börn á ári sem þurfa að fá lyfjabrunn og eru ástæðurnar misjafnar. Stór hluti þessara barna eru börn sem greinst hafa með krabbamein en það eru einnig börn með hjartasjúkdóma, Cystic Fibrosis, blóðsjúkdóma, meðfædda ónæmisgalla og meltingarsjúkdóma sem þurfa að fá lyfjabrunn svo dæmi séu tekin.
Það að fræða börn og foreldra vel hjálpar mikið. Læknar barnsins, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar fræða á sinn hátt sem er mjög mikilvægt í ferlinu en þegar heim er komið fara börnin oft á tíðum að spyrja spurninga og velta hlutunum meira fyrir sér og er þá bók eins og þessi algjörlega frábær til að grípa í og lesa með barninu. Það hjálpar því að skilja hvaða verkefni eru framundan og sjá að það eru fleiri en þau sem þurfa lyfjabrunn og eru með lyfjabrunn. Börn þurfa að sjá og því meira sjónrænt því betra.
Þórunn Eva á barn sem er með lyfjabrunn og þekkir því ferlið vel. Þórunni Evu fannst vanta bók sem þessa til að grípa í og lesa með sínu barni til að auðvelda því ferlið. Það er gott að leyfa barninu að lesa, skoða og spyrja. Það er ekki til nein sambærileg fræðsla á íslensku sem hægt er að rétta foreldrum svo þetta verkefni er mjög þarft og mikilvægt inní þá fræðslu sem er veitt í dag.

Þórunn Eva hafði samband við Bergrúnu Írisi til þess að teikna fyrir sig Míu til að setja inní verkefnið og kynna þessa hugmynd. Bergrún tók vel í það og úr varð að Mía fæddist. Bergrún Íris ritstýrði bókinni ásamt því að myndskreyta hana. Blær Guðmundsdóttir sá um umbrot.

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir er fædd árið 1985 og býr í Hafnarfirði ásamt fjölskyldu sinni. Bergrún útskrifaðist með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands 2009, lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2012 og sótti sumarskóla í barnabókagerð í Anglia Rushkin, Cambridge School of Art.
Bergrún hefur alltaf haft áhuga á barnabókum en sá áhugi fékk byr undir báða vængi þegar hún varð móðir haustið 2009. Hún hefur myndskreytt fjölda barnabóka og námsefni, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Fyrsta bók Bergrúnar sem rithöfundur var barnabókin Vinur minn, vindurinn sem kom út hjá Bókabeitunni haustið 2014 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, sem afhent voru í fyrsta sinn þann 24.4.2019 í Reykjavík. Bergrún Íris hlaut verðlaunin fyrir handritið Kennarinn sem hvarf.
Hægt er að kynna sér verk Bergrúnar á vefsíðunni bergruniris.com.
Bækur:
Vinur minn, vindurinn
Sjáðu mig, sumar
Viltu vera vinur minn?
Búðarferðin
Besta bílabókin
(lang) Elstur í bekknum
(lang) Elstur í leynifélaginu
Næturdýrin