Tryggvi Helgason, barnalæknir hlaut Míuverðlaunin 2022

Tryggvi Helgason, barnalæknir hlaut Míuverðlaunin 2022

Míuverðlaunin voru afhent í þriðja sinn við hátíðlega athöfn á Spritz Venue Reykjavík í gær og var það Tryggvi Helgason, barnalæknir sem hlaut verðlaunin í ár.

Tíu heilbrigðisstarfsmenn sem vinna með langveikum börnum voru heiðraðir á viðburðinum. Það voru þrír vant við látnir eins og gengur og gerist en hér má sjá þá sem sáu sér fært að mæta.

Agnes, Helga, Sigrún María, Tryggvi, verðlaunahafinn í ár, Ingólfur, Oddný & Erla Ösp. Á myndina vantar, Valtýr Thors, Gróu Björk & Sigurð Marels.

„Tryggvi ákvað aðeins sex ára gamall að hann ætlaði að mennta sig sem læknir, en hann er af þriðju kynslóð lækna í beinan karllegg. Afi hans var fyrsti prófessor Íslands í barnalækningum. Faðir Tryggva starfaði sem geðlæknir en áhugi hans lá í svefnrannsóknum og síðar þróun á svefnmælitækjum,“ kom fram í ræðu um Tryggva á viðburðinum.

„Tryggvi stundaði nám við Menntaskólann í Hamrahlið, þaðan lá leið hans í læknadeild Háskóla Íslands. Tryggvi lét þó erfitt háskólanám ekki duga því eins og hann segir sjálfur: Meðan ég var í læknisfræðinni var ég í tvö ár í Söngskóla Reykjavíkur. Eftir kandidatsárið tók ég mér svo árs frí frá dagvinnu, vann á vöktum en kláraði 7. og 8. stig í klassískum söng! Tryggvi hélt síðan út til Rotterdam í Hollandi þar sem sérnám í barnalækningum varð fyrir valinu.“

Í Rotterdam starfaði Tryggvi sem barnalæknir á Sophia barnaspítalanum þangað til hann flutti aftur heim til Íslands árið 2007. Hann hóf störf hjá Domus Medica og árið 2011 byrjaði hann að starfa á barnaspítala Hringsins og starfar Tryggvi í dag á báðum stöðum.

„Tryggvi stofnaði Heilsuskólann sem er starfræktur á göngudeild barnaspítala Hringsins. Áhugi hans á offitu barna kviknaði þegar hann var í Rotterdam í sérnámi og hefur hann síðan þá verið helsti sérfræðingur okkar hér á landi í þeim málaflokki.“

Kynnar Míuverðlaunanna í ár voru þau Eva Ruza & Hlynur Atli. Brynja Dan afhenti Tryggva verðlaunin fyrir hönd Mia Magic.  Inga Elín, ein virtasta handverkskona evrópu hannaði Míuverðlaunin ár og vá hvað við erum ótrúlega stolt að hafa fengið hana með okkur í lið.

Hlynur Atli og Baldur Björn tóku svo lagið fyrir okkur í lokin sem sló rækilega í gegn hjá öllum á svæðinu, fengu fólkið meira að segja til þess að taka undir sem var stórkostlegt. Þessir gormar eru það allra hæfileikaríkasta sem ísland á þessa dagana.

 

Allar myndir eru teknar af Rakel Ósk Sigurðardóttur, ljósmyndara. Patricia Arjona, innanhússarkitekt, stíliseraði viðburðinn og henni til halds og trausts var Anna Björt. Ótrúlega fallegur viðburður sem við erum mikið stolt af. Hlökkum til að halda næstu Míuverðlaun þann 14. september 2023.

Newsletter

Subscribe to our newsletter and join our  subscribers.

Related Posts